SMÁSÖGUR

ÆVINTÝRI LÍKAST

Jólasögur

JÓLIN ERU ALVEG DÁSAMLEG!

Í bókinni eru fjórtán frábærar smásögur eftir níu rithöfunda. Höfundarnir túlka allir jólastemninguna á afar ólíkan hátt. Samt tekst þeim öllum að fanga lesandann og draga hann inn í hugarheim jólanna.

Hér eru fjölskyldur sameinaðar og sundraðar. Ástin leynist í jólaösinni, á meðan aðrir syrgja. Reiður draugur mætir í jólamessuna. Litlir fuglar syngja glæður í ástina og gefa einmana sálum von um betra líf. Nágrannar keppast um að vera með bestu jólaskreytinguna. Börnin líða fyrir jólastressið og sumar jólagjafir verða skelfingu lostnar, þegar þeim er pakkað inn. Ástfangin geimvera birtist á sjálfan aðfangadag. Jólasveinarnir villast og kannski flytur norn í bæinn.

Já, allt getur gerst og allir í fjölskyldunni ættu að geta fundið sína uppáhalds jólasögu.

UM BÓKINA

Jólasögur er fjórða smásagnabókin sem gefin er út sem samstarfsverkefni höfunda á vefnum. Samstarfið hverju sinni hefst þegar kosið er um þema bókarinnar. Við hjálpum hvert öðru við að fullvinna sögurnar með því að lesa yfir og gagnrýna fyrir hvert annað. Öll verkefni, svo sem prófarkalestur, uppsetning, útgáfa, dreifing og kostnaður, eru rædd innan hópsins. Verkefnin eru því sem næst öll unnin af okkur. Nafn bókarinnar og bókar­kápan eru valin með kosningu. Þetta er opinn hópur sem á upphaf sitt á rithringur.is. Ef þú hefur hæfileika og dreymir um að gefa út smásögu ert þú velkomin(n) í hópinn. Við stefnum að því að gefa út smásögur árlega. Flest höfum við gefið út áður og sum unnið til verðlauna í smásagnasamkeppnum, svo sem Gaddakylfunni. Þú getur haft samband við okkur á facebook á síðunni Smásögur eða fundið okkur á vefsíðunni smasogur.com.

Fyrsta bókin okkar heitir Smásögur 2012 og er fáanleg á Amazon. Óðinsauga útgáfa gaf út bækurnar okkar næstu tvö árin. Þær bækur eru fáanlegar í flestum bókaverslunum. Þetta var síðasti dagur lífs míns kom út árið 2013, en þess má geta að allar sögurnar í bókinni byrja á þeirri setningu. Skuggamyndir kom út árið 2014 og er samansafn ógnvekjandi hrollvekja. Nú gefum við út Jólasögur og vonum að þú njótir lestursins og komist í jólaskap.