SMÁSÖGUR

ÆVINTÝRI LÍKAST

Auður A. Hafsteinsdóttir

„Ég byrjaði bara allt í einu að skrifa. Það var svolítið skrýtið,“ segir Auður Hafsteinsdóttir.

Auður Hafsteinsdóttir býr í Hafnarfirði. Hún er gift Þorbirni V. Gestssyni , á tvö börn og starfar heima. Auði þekki ég lítið sem ekkert en samt hafa leiðir okkar legið saman síðustu átta árin í gegnum rithringinn, þar sem hún er mjög virkur notandi og afskaplega þægileg í samskiptum, alltaf boðin og búin að leiðbeina öðrum höfundum í frumskógi skriftanna. Auður hefur verið að skrifa meira og minna síðan 2002 og það sem meira er þá hefur eiginmaðurinn og dóttirin líka verið að skrifa. En nú ætla ég að setja fram spurningarnar og gefa Auði orðið.

Hvernig efni skrifar þú? „Ég skrifa allt, frá hryllingssögum til dramasagna og allt þar á milli. Nema ég á eftir að skrifa ástarsögu, hún hefur ekki enn komið til mín, en þegar hún kemur, ætli það verði þá ekki saga byggð á kynnum okkar Þorbjörns, hver veit? Ég vil og reyni að hafa sögurnar mínar með flækju og óvæntan endir og tekst það oftast.“

Hafðir þú einhverja reynslu, stuðning, ráðgjöf eða aðstoð við að skrifa? Eða upplifðir þú það að vera á eigin vegum? Óviss um hvort þú værir á réttri leið? „Nei ekki get ég sagt það svona í byrjun. Ég byrjaði bara allt í einu að skrifa. Það var svolítið skrýtið. Ég var heimavinnandi með börnin, annað var á leikskóla og hitt fór ég með á róló og allt í einu átti ég um 2 klukkutíma lausa. Ég fór auðvitað eins og góðri húsmóður sæmir að skúra skrúbba og bóna og fór síðan dauðþreytt að sækja drenginn. Næsta dag ákvað ég að gera eitthvað skemmtilegra og það var bara eins og ég sogaðist að tölvunni og byrjaði að skrifa sögu. Ég var full af sjálfstrausti og hélt að ég kynni þetta allt. Ímyndunaraflið var fínt en að koma persónunum úr sporunum var allt annað og erfiðara við að eiga. Mínir helstu áhangendur, bestu vinkonu minni og Þorbirni mínum fannst sagan mjög skemmtileg. Hún var það kannski en þegar ég leit seinna á hana þá sá ég hvað hún var hrikalega illa skrifuð. Fannst vanta allt kjöt á beinin.“

Hefur þú farið á einhver námskeið? „Mánuð eftir að ég byrjaði að skrifa, var mér bent á ritlistarnámskeið hjá Endurmenntun HÍ. Rúnar Helgi Vignisson var þar ritstjóri, eins og hann kaus að kalla sig. Ég fór full sjálfstrausts, því mitt fólk hvatti mig áfram og ég átti orðið nokkrar sögur. Ég var t.d. sú eina sem skilaði inn tveim smásögum á námskeiðinu en það átti a.m.k. að skila inn einni. Fólk las síðan sögurnar og talaði um þær. Ég fékk ágæta umfjöllun þar, ætli ég hafi ekki bara hitt á réttu blönduna, sögur með plotti og óvæntum endi. En á þessu námskeiði lærði ég heilmikið ég sökkti mér í sögurnar hjá hinum og tók virkan þátt í umfjöllunum um sögurnar. Ég mætti líka alltaf og las allt námsefnið sem sett var fyrir. Sem sagt fyrirmyndarnemandi enda var ég með brennandi áhuga þó ekki væri ég orðin mjög góður höfundur á þessum tíma, langt því frá. Er reyndar enn að reyna að bæta mig,“ segir hún hógvær.

Hvenær fékkstu fyrst birtingu og hvaða saga sem þú hefur skrifað er í uppáhaldi og hvers vegna? „Ég fékk fyrst birta sögu í kilju sem fylgdi Nýju Lífi árið 2006, sem heitir, „Ekki er allt sem sýnist.“ En uppáhaldssagan mín er draughrollvekjan „Refsingin.“ Hún byrjaði sem örsaga, aðeins nokkur hundruð orð svo var ég alltaf að bæta við hana. Mér finnst hún líka vera best skrifaða smásagan mín, var lengi í vinnslu og einnig tókst mér að skrifa hana á dálítið ljóðrænan máta. En ég er mjög hrifin af því, á erfitt með að skrifa þannig. Sú saga birtist í Stínu tímariti um bókmenntir og listir.“

Hvert er framhaldið hjá þér í skrifum og markmiðin? „Mitt markmið er að halda áfram að skrifa smásögur og fá birt í kiljum og tímaritum. Mig langar a.m.k. ekki núna fyrir nokkurn mun að skrifa bók. Ætli ég fá ekki bara nógu mikið kikk úr því að fá sögurnar mínar birtar. En margir hafa einmitt spurt mig hvort ég ætli ekki að fara að gefa út bók. Held líka að þolinmæðin hjá mér sé ekki næg til þess að hendast í að skrifa bók. Kannski kemur að því að við Þorbjörn skrifum saman sögu, það gæti verið gaman. Held að sú saga gæti komið skemmtilega út því við skrifum á svo ólíkan máta að það væri gaman að vita hvert sú saga myndi leiða okkur. Hann hefur skrifað eina mjög góða sögu sem hefur birst bæði í kilju og tímariti. Þess má einnig geta að hann les allar mínar sögur yfir og aðstoðar mig eftir megni. Hann hefur gaman af því og það veitir mér svo mikinn kraft að vita af honum og spyr ég hann mjög oft ráða. Ég hef hvatt hann líka til að skrifa aðra sögu og ætlar hann að gera það en hefur að vísu ekki látið uppi hvenær það myndi verða. Leyndardómsfullur hvað það varðar.“

Ég læt þessu hér með lokið og þakka Auði kærlega fyrir viðtalið og óska henni og fjölskyldu hennar góðs gengis á ritlistarbrautinni.

Hér fyrir neðan fylgir með stutt saga frá Auði um upplestur. Skáldspírukvöld Hér áður fyrr voru haldin Skáldaspírukvöld (upplestrarkvöld) og voru þau á vegum Benedikt Lafleur Þau voru haldin á sunnudagskvöldum á kaffihúsum í Reykjavík. Stundum voru þekktir rithöfundar að lesa upp ásamt óþekktum höfundum. Ég mætti alltaf á þessi kvöld ásamt Þorbirni mínum. Þau voru misvel sótt og stundum voru einungis örfáir. Benedikt og við fórum að spjalla og einhvernvegin kom það til tals að ég skrifaði sögur. Hann beit strax á agnið og spurði hvort ég væri ekki til í að lesa upp, þessi spurning hans kom mér svo á óvart að ég svaraði bara; „já“ án þess að hugsa. Síðar hafði hann samband við mig og spurði hvort ég væri til í að lesa upp eftir um það bil 2 vikur. Ég jánkaði því með hnút í maganum. Það stóð þannig á að við fjölskyldan vorum að fara í húsbílaferð til Vestmannaeyja. Og þvílík ferð, ég hafði prentað út söguna sem ég ætlaði að lesa og æfa mig að lesa hana upphátt. Í hvert skipti sem ég tók upp blöðin fékk ég hnút í magann, mér kveið svo fyrir. Hvað er ég nú búin að koma mér í, hugsaði ég. Ég naut ekki ferðarinnar sem skyldi fyrir vikið. En svo kom að kvöldinu góða og það var frekar margt um manninn, til að róa aðeins taugarnar fékk ég mér einn bjór áður en kom að mér. Og þá áttaði ég mig á því að maður getur gert heilmikið án þess að gera sér grein fyrir því. Ég las söguna mína, hafði valið stutta sögu og allt gekk mjög vel. Fólkið sem kom með mér sagði að ég hefði staðið mig með stakri prýði. Svo að einn upplestur er ég með á ferilskránni og kýs ekkert að hafa þá fleiri. Æskuvinkona mín átti stórafmæli um daginn og frábað sér allar afmælisgjafir, ég gaf henni nú samt Rithringsbókina 2012 en í henni eru sögur eftir mig og manninn minn. Auk þess samdi ég ágæta ræðu henni til heiðurs. Til að komast hjá því að lesa hana fyrir allt fólkið, kynnti ég ræðuna mína en sagðist því miður hafa gleymt lesgleraugunum mínum svo að maðurinn minn ætlaði að redda mér og lesa ræðuna fyrir mig sem hann gerði með stakri prýði. Ræðan fékk góðar móttökur og margir hlógu og sögðu við mig að þetta hefði verið frábær ræða, en leitt væri að ég hefði gleymt lesgleraugunum mínum. Svo að maðurinn minn hefur komið víða við í sambandi við mín skrif.

Útgefið efni:
• Ekki er allt sem sýnis, smásagnasafn Nýs Lífs og veftímaritið Verðandi 2006.
• Sýnir, glæpasmásögur (Gaddakylfan) Mannlíf 2007.
• Refsingin, Stína tímarit um bókmenntir og listir og tímaritið Ský 2011.
• Leyndarmálið, tímaritið Ský 2011.
• Gluggagægir, tímaritið Vísbending 2012.
• Refsingin, rafbók Rithringsins/kilja 2012.
• Leyndarmálið, rafbók Rithringsins/kilja 2012.
• Morgundagurinn, Stína tímarit um bókmenntir og listir 2013.
• Hugarheimur Rithöfundarins, rafbók Rithringsins/kilja 2013.