SMÁSÖGUR

ÆVINTÝRI LÍKAST

Einar Leif Nilsen

„Höfnun er alltaf erfið tilfinning en það er nauðsynlegt að komast í gegnum hana og halda áfram.“

Það er bara ósköp venjulegt þriðjudagskvöld fyrir utan að ég ætla að hitta Einar Leif Nielsen á kaffihúsinu í bókabók Eymundsonar við Austurstræti. Ég hef hitt hann tvisvar áður í mýflugnamynd, í fyrra skiptið á 10 ára afmælishátíð Rithringsins í febrúar síðast liðinn, þar sem hann tók á móti verðlaunum. Og svo man ég óljóst eftir honum á örnámskeiði í markaðssetningu sem Þóranna hjá MÁM hélt á bókasafni Kópavogs í mars. Mig minnir að hann hafi verið rólegur, yfirvegaður, snyrtilegur og … Það skiptir ekki máli hvað mig minnir ég mun hitta hann eftir stutt korter, og því ætla ég að eyða ásamt Eika mínum í að gramsa í bókahillunum og á borðum Eymundssonar enda er þarna heill fjarsjóður af bókum. Eiki hjálpar mér að leita að bókinni minni en svo finnum við hana loksins ásamt bókinni hans Einars Leifs á borði með Arnaldi Indriðasyni, Stefáni Mána og fleirum flottum höfundum. Ég er upp með mér, tek eina af bókum Einars Leifs og les aftan á hana. „Í borg framtíðarinnar er allt falt fyrir rétt verð. Hverfi eru girt af með veggjum til að verja borgarana fyrir hvor öðrum og mismunandi stéttir aðskildar. Þeir sem standa ekki við skuldbindingar sínar er vísað úr borginni eða jafnvel teknir af lífi…“ Eiki pikkar í mig og við drífum okkur upp, fáum okkur sæti inni, því það er allt rennandi blautt úti eftir látlaust regnið. Einar Leif kemur rétt á eftir okkur. Við heilsumst, hann nær sér í te áður en hann sest andspænis mér og við dembum okkur spjallið enda ekki eftir neinu að bíða. En ég kynni hann fyrst fyrir Eika mínum sem nennir að bíða eftir mér.

Einar Leif Nielsen er verkfræðingur, og býr í Reykjavík. Hann lauk námi í B.S. Iðnaðarverkfræði frá (HÍ), M.S. Hagnýtri stærðfræði frá (Danmarks Tekniske Universitet). En vinnur við innri endurskoðun Íslandsbanka. Hans áhugamál eru, bíómyndir og sjónvarp og er hann alæta á allt fréttatengt því. Þá er hann hrifinn af tónlist, er ágætis gítarleikari og hefur spilað nokkuð á tónleikum. Þá fór Einar Leif í píanótíma í vetur til að bæta það sem fyrir var. Bækur eru auðvitað í pakkanum og stjórnmál en hann skrifaði um árabil á deiglan.com en það hefur minnkað eftir hrunið. Á Rithringur.is hefur hann verið að gagnrýna, skrifað um bækur á Goodreads og svo heldur hann líka úti vefsíðu sem hann setti upp fyrr á þessu ári.

Útgefið efni: Skáldsagan „Hvítir múrar borgarinnar“ (2013), verðlaunasmásagan, „Síðasti dagurinn“ (2013), smásagan „Ævistarfið“ Smásögur 2013 Rithringur.is

Hvað hefur þú skrifað lengi og hvernig efni skrifar þú? „Ég byrjaði að fikta við þetta um 11 ára aldur eftir að hafa lesið Hobbit eftir Tolkien. Reyndi meira að segja að skrifa þannig bók strax á eldgamla PC vél en komst einungis á bls 11. Skrifa mest vísindaskáldsögur, hef samt líka gaman að skrifa hrollvekjur og ævintýri. Ein og ein borgarsaga hefur líka verið skrifuð.“

Hafðir þú einhverja reynslu, stuðning, ráðgjöf eða aðstoð við að skrifa? „Mamma hefur alltaf verið dugleg að styðja mig. Svo eftir því sem maður opnaði sig meira um skrifin þá hafa vinirnir líka sýnt stuðning. Helsta ráðgjöfin hefur verið frá Þorsteini Mar eftir að hann fór að rýna handritið að bókinni minni. Eftir að ég fór að auglýsa vænta útgáfu fór svo ólíklegasta fólk að sýna mér stuðning og veita mér ráðgjöf. Það er ótrúlegt hvað það er mikið til af góðu fólki sem vill styðja mann. Að vísu má ekki gleyma þeim stuðningi sem maður fékk á rithringnum þegar maður fiktaði við að setja inn sögur þar. Sumir voru einstaklega ánægðir með sögurnar mínar og það var alveg ótrúlega hvetjandi.“

Upplifðir þú það að vera á eigin vegum? „Já, maður hélt þessu heil mikið út af fyrir sig til að byrja með en hefur rólega verið að opna sig. Sérstaklega eftir að bókin kom út. Þá verður maður víst að stíga fram í dagsljósið.“

Hafðir þú einhverjar efasemdir um að þú værir á réttri leið? „Algjörlega. Hef alltaf verið hræðilegur tungumála maður og ómögulegur í stafsetningu. Upplifði því stundum að þetta væri eitthvað sem ég ætti aldrei möguleika á að leggja fyrir mig.“

Það er komið kaffihlé, Eiki minn stendur upp og nær í þetta líka góða kaffi handa okkur. Við Einar Leif ræðum heilmikið um markaðssetningu og hvernig honum hefur gengið að koma sér og bókinni sinni á framfæri. Og hann segir mér að hans leið sé að hitta fólkið í búðunum og hringja í fjölmiðla til að láta vita af sér og bókinni sinni. Hann segist líka hafa grætt heilmikið á markaðssetninganámskeiðinu hennar Þórönnu K Jónsdóttur, sem Rithringurinn skipulagði. Þá hafa vinir hans hvatt hann áfram. Eins og hann segir sjálfur á hógværan hátt: „Þetta er nokkuð sem maður þarf að læra og tekur tíma að venjast en ég held að þetta sé eitthvað að batna hjá mér.“

Hefur þú sótt einhver námskeið sem tengjast skrifunum? „Já, í greinarskrifum bæði í endurmenntun og hjá deiglan.com. Tók svo eitt íslensku námskeið hjá endurmenntun. Markaðssetningarnámskeið hjá Rithringnum. Mig langar að fara á fleiri námskeið og stefni á að fara á a.m.k. eitt í vetur. Samt oft erfitt að bæta ofan á vinnuna og skriftirnar.“

Áttu einhverja fyrirmynd? „Ray Bradbury og Richard Matheson (þeir létust báðir á síðastliðnu ári). Það er fjölbreytileiki og frumleiki í sögum þeirra sem hefur alltaf heillað mig. Þeir voru líka ekki mikið fyrir „happy endings“ sem hefur líka ákveðið heillað.“

Hvað varstu lengi að skrifa bókina þína, Hvítir múrar borgarinnar? „Ég byrjaði á henni árið 2004 og kláraði hana ári síðar, á meðan ég var í námi í Danmörku. Hún lá svo ofan í skúffu til ársins 2011 þegar ég sá auglýsingu frá Þorsteini Mar hjá Rúnatý. Hann aðstoðaði mig svo við að fullvinna handritið sem tók næstum eitt og hálft ár. Á þeim tíma lærði ég hvað það er mikilvægt að vinna daglega við það að skrifa.“

Hvenær fékkstu fyrst birtingu? „Fyrsta birtingin var í skólablaði MR veturinn 1999-2000. Ég fékk lítil viðbrögð enda nokkur tilraunastarfsemi í gangi hjá mér á þeim tíma.“

Hvernig voru þín fyrstu skref til útgefanda? „Ég sendi jólabarnasögu á útgáfu árið 2009 en fékk aldrei svar. Merkilegt hvað fólk er óduglegt við að svara, og það er í raun mun verra að fá ekkert svar en neitun. Það dró nokkuð úr mér en ég sendi svo til Rúnatýs 2011 með góðum árangri og er ótrúlega ánægður með þá reynslu.“

Þekktir þú eitthvað til? „Ég þekkti ekkert til hjá útgefendum. En hef nú kynnst Þorsteini Mar í gegnum þá miklu vinnu sem hann hefur aðstoðað mig með og ég skulda honum mikið þakklæti. Svo er maður alltaf að kynnast bransanum betur eftir útgáfuna.“

Var þetta auðvelt? „Það er í sjálfu sér auðvelt að senda inn. Maður verður bara aðeins að stökkva út í djúpulaugina. Höfnun er alltaf erfið tilfinning en það er nauðsynlegt að komast í gegnum hana og halda áfram. Hún kennir manni að vinna betur sem er einstaklega mikilvægt. Ef maður er svo heppinn að fá jákvætt svar er tilfinningin svo æðisleg og höfnunin gleymist.“

Hvaða saga sem þú hefur skrifað er í uppáhaldi? „Það er jólasagan sem ég sendi til útgefanda. Ég vona að hún verði birt einhver tímann í framtíðinni, spurning um hvenær ég reyni á það.“

Hvert er framhaldið hjá þér í skrifum? „Ég stefni á að skrifa aðra vísindaskáldsögu og koma henni út, vonandi á næsta ári. Ég er að vinna í tveimur hugmyndum og er ekki alveg búinn að ákveða hvor þeirra verður ofan á.“

Markmiðin? „Er að verða skemmtilegur höfundur sem veitir lesendum ánægju.“

Það er ekkert nýtt, tíminn líður á ógnarhraða, Einar Leif ætlar í ræktina og ég þakka honum fyrir skemmtilegt og áhugavert viðtal. Þegar við Eiki minn komum út tekur á móti okkur skemmtileg götusýning og við njótum hennar um stund.

Viðtal tekið af Sirrý Sig