SMÁSÖGUR

ÆVINTÝRI LÍKAST

Fjalar Sigurðson

Fjalar Sigurðarson sótti um í vor með nýjum sögum og komst aftur inn. Núna ætlar hann að láta vaða. Viðmælanda minn Sigurð Fjalar Sigurðarson ætla ég að hitta á Mokka kaffi eftir kvöldmat. Eiki minn pikkar mig upp í vinnunni, við drepum tímann og fáum okkur að borða á American Style, síðan ökum við niður í miðbæ og leggjum við Hallveigarstíg og röltum í góða veðrinu að Mokka kaffi við Skólavörðustíg. Ég ríf upp hurðina en þá stendur ung stúlka upp og segir að það sé búið að loka, að þau loki kl. 18:30. Ég hrökklast út og við Eiki minn stöndum eins og illa gerðir einstaklingar og bíðum eftir Sigurði Fjalari. Hann er grannur, dökkhærður og gengur rösklega að okkur með símann í hendinni.

„Ert þú Sigurður Fjalar?“ spyr ég og hann jánkar því. Þá segi ég honum að það sé búið að loka og hann tekur af skarið og vísar okkur leiðina að kaffihúsi ofar í götunni sem heitir Babalú. Húsið er appelsínugult að utan og litagleðin er ekki síður minni þegar inn er komið. Og maður hefur menninguna alveg á tilfinningunni. Við göngum upp skærgrænar tröppur upp á aðra hæð þar sem húsmunir eru allir úr sitthvorri áttinni en þó komnir til ára sinna líkt og húsið sjálft. Bækur, blöð og myndir gera litlu stofuna notalega heimilislega. Við komum okkur fyrir og Eiki pantar kaffi fyrir okkur. En nú að Fjalari eins og hann er jafnan kallaður.

Hann er trúlofaður Sigrún Halldórsdóttur hjúkrunarfræðingi og saman eiga þau eins og hálfs árs gamla dóttur, Ylfu Margréti. Það fer ekki á milli mála að stúlkurnar hans tvær eru númer eitt hjá honum þó hann hafi í miklu að snúast, bæði í vinnunni og frítíma sínum.

Fjalar vinnur við upplýsingatækniverkfræði hjá Veðurstofu Íslands, en hann er með B.Sc. gráðu í rafmangs- og tölvuverkfræði og M.S.c í iðnaðarverkfræði frá HÍ.

Í stuttu máli dregst Fjalar að öllu sem er skapandi og eins og hann segir sjálfur: „Ég hef verið viðriðin tónlist frá því ég var 9 ára. Ég spila á túbu, básúnu, barítón, trompet og gítar. Geta mín á þessi hljóðfæri er reyndar ekki alveg einsleit en túban hefur alltaf verið mitt aðal hljóðfæri. Ég hef spilað í nokkrum lúðrasveitum í gegnum tíðina og síðan einni dixie jazz hljómsveit sem heitir Öndin og var lengi vel fastagestur á Kaffi Vín þegar það var og hét á Menningarnótt. Ég stússa síðan sjálfur í því heima að taka upp tónlist og búa til tónlist á tölvu en það hefur farið minna fyrir því eftir að ég fór að skrifa.“

Og þá að þessum týpísku spurningum á milli þess sem við sötrum kaffi.

Hvert er rithöfundanafn þitt? „Ég geri ráð fyrir að skrifa undir Fjalar Sigurðarson því flestir þekkja mig sem Fjalar.“

Hvað hefur þú skrifað lengi og hvernig efni skrifar þú? „Ég átti eins árs skriftarafmæli í apríl og ég skrifa aðallega smásögur eins og er en það er einfaldlega af því að mér finnst það form henta vel til að koma mér af stað. Ég ætla að skrifa vísindasögur en hef í raun skrifað alls konar sögur hingað til, barnasögu, hádramatíska sögu, vísindasögu, spennusögu sem sagt allt smásögur.“

Hefur þú fengið birt efni? Hvar og hvenær? „Bara núna í nýju Rithringsbókinni. Hef ekki reynt að fá birt eftir mig annars staðar ennþá.“

Hafðir þú einhverja reynslu, stuðning, ráðgjöf eða aðstoð við að skrifa? Eða upplifðir þú það að vera á eigin vegum? Óviss um hvort þú værir á réttri leið? „Ég hef setið tvö námskeið, hjá Þorvaldi Þorsteinssyni heitnum og Önnu Heiðu Pálsdóttur, sem hafa auðvitað hjálpað en þegar ég tók loksins ákvörðun um að byrja að skrifa þá bara gerði ég það, óð blint af stað og skrifaði og til varð saga.“

Hvar fréttir þú af Rithringnum? „Ég hreinlega gúgglaði mig inn á hann í september 2012. Bjó að sjálfsögðu til notanda, skoðaði aðeins hvað var þarna inni, skráði mig út og fór ekki aftur inn fyrr en fjórum mánuðum síðar. Ég var upptekinn af því að vera þreyttur pabbi á þessum tíma og skrifaði lítið.“

Finnst þér rithöfundastarfið eða þú hafa breyst eftir að þú gerðist meðlimur á rithringnum? „Já, ég hef kannski ekki breyst mikið því ég er svo grænn ennþá en jú það er eitt sem hefur breyst og það er hvernig ég tek því að fá gagnrýni á textann minn. Það er mikil æfing í því að fá gagnrýni á texta og taka því ekki illa. Því þegar öllu er á botninn hvolft þá hafa allir sínar skoðanir. Sumu er maður sammála en annað verður maður bara að virða. Skriftarstarfið sjálft hefur breyst hjá mér að því leiti að núna er ég í félagsskap sem er nokkuð virkur, mjög hvetjandi og heldur mér frekar við skriftirnar en annars væri. Það er ekki bara einsemd í ritstörfunum eins og virðist við fyrstu sýn.“

Myndir þú mæla með þessum vetfangi fyrir fólk sem er að stíga sín fyrstu skref í skrifum? „Alveg hiklaust. Það er hægt að fá fullt af góðri hvatningu á þessum vettvangi og mjög mikill lærdómur fólginn í því að rýna sögur hjá öðrum. Sú reynsla nýtist beint inn í eigin skrif.“

Hvers vegna ákvaðst þú að vera með í smásagnabók Rithringsins 2013 og hvernig tókst það? „Ég ákvað að taka þátt af því að það hvatti mig til að skrifa sögu, skila henni fyrir ákveðinn tíma og til að kynnast fólki. Mér finnst í raun einstakt hversu vel þessum hópi, sem stendur að þessari bók, hefur gengið vel að vinna saman og leysa hin ýmsu mál og atriði sem komið hafa upp, miðað við hvað hópurinn og væntingarnar eru ólíkar innan hans.“

Hvaða form hentar þér best? Smásagna/skáldsagna… „Ég þekki í raun smásagnaformið aðallega ennþá þannig að það er erfitt fyrir mig að meta það. Spurðu mig aftur eftir nokkur ár,“ segir Fjalar og brosir. Það er aldrei að vita nema að ég taki hann á orðinu, ef hann hefur þá tíma fyrir viðtalið.

Hvaða saga/bók sem þú hefur skrifað er í uppáhaldi og hvers vegna? „Ég er ekki búinn að skrifa margar sögur en ætli það sé ekki fyrsta sagan mín, sem heitir Heimsendir, og fjallar um tvo félaga, útlendinga, sem að ferðast til Íslands í sína síðustu ferð saman. Hún er í uppáhaldi sennilega af því að hún er sú fyrsta og tókst bara ágætlega að mér finnst, hvað sem síðar verður.“

Áttu þér einhvern uppáhaldshöfund? „Ég á mér enga eiginlega fyrirmynd í ritlistinni, engan sem ég lít sértaklega upp til og hugsa, ,,ég ætla að verða eins og þú.“ Ég horfi auðvitað til ýmissa rithöfunda og skoða hvernig efnistök og vinnubrögð þeirra eru og allt það. Þeir veita mér kannski innblástur, hver um sig.“

Hvernig bækur lestu? „Ég hef mest lesið enskar vísindasögur, minna af íslenskum bókmenntum en það stendur til bóta því mig langar að skrifa fallegt, gott íslenskt mál en vinna sögur með vísindalegri leikmynd. Höfundar sem ég held mikið upp á eru t.d. Isaac Asimov og Dan Simmons. Það er erfiðara að segja til um hvaða bók sé í uppáhaldi en ég ætla að nefna hér bókina Hyperion sem er skrifuð af Dan Simmons því hugmyndaauðgin hjá honum í þeirri bók lifir enn með mér. Þessi bók og systurbækur hennar sem líka eru góðar, sumar betri en aðrar, eru í raun geimóperur því heimurinn sem skapaður er í þeim er mjög yfirgripsmikill og söguþráðurinn epískur.“

Hvert er framhaldið hjá þér í skrifum? Markmiðin? „Ég er að fara í ritlistarnám í Háskóla Íslands í haust og ég vona að það skili mér betri grunni til að vinna sem rithöfundur. Ég er sífellt að fá hugmyndir að senum, sögum og hverju sem er og ætli ég leitist ekki bara við að skrifa eins mikið og ég get af þessu, fyrst og fremst mér til gamans og vonandi öðrum til skemmtunar. Ég sé ekki endilega fyrir mér að ég lifi fjárhagslega af skrifum en þetta er ástríða hjá mér og ég mun sinna henni eins lengi og hún leyfir mér.“

Mig langar að vita miklu meira um ritlistarnámið og aðdragandann að því og deili því með ykkur hérna:

„Ég ákvað með sjálfum mér að sækja um í ritlist í Háskóla Íslands því mig langaði svo að skrifa sögur og þá sérstaklega vísindasögur. Ég settist því niður og byrjaði á skrifa og á fjórum vikum varð fyrsta sagan mín til, rétt rúmlega sex þúsund orð. Til að komast inn í ritlistina þá þarf að skila frumsömdu efni og síðan velur dómnefnd úr efninu. Þessi frumraun mín var sem sagt nógu góð til að koma mér inn. Mér fannst þetta frábært og þetta kom mér virkilega á óvart; ég gerði ekki ráð fyrir að komast inn. Verandi nýbakaður faðir þá sá ég ekki fram á að geta farið á fullt í námið þannig að ég afþakkaði. Í vor sótti ég aftur um með nýjum sögum og komst aftur inn, sem er frábært. Núna ætla ég að láta vaða.“

Við erum búin með kaffið en gætum haldið endalaust áfram að tala um sögur, sagnagerð og annað sem tengist áhugamáli okkar. En Sigrún og Ylfa Margrét bíða heima þó svo að sú yngri sé trúlega sofnuð. Við Eiki minn eigum líka eftir að keyra út eftir. Ég þakka Fjalari fyrir tíma sinn og hlakka til að fylgjast með ritstörfum hans í framtíðinni. Við erum samferða út, niður götuna og kveðjumst á næsta götuhorni.

Viðtal tekið af Sirrý Sig