SMÁSÖGUR

ÆVINTÝRI LÍKAST

Huginn Þór Grétarsson

„Fólk með ólíkan bakgrunn eykur fjölbreytni í bókmenntum.“

Dagur bókarinnar var haldinn í vor um allt land, Reykjavíkurborg titlar sig sem bókmenntaborg og hefur áhersla verið lögð á að auka lestur barna. En forsenda þess að börn fái tækifæri til að lesa og njóta bókmennta er sú að barnabókaútgáfa í landinu sé blómleg og að út komi vandaðar bækur á íslensku. Einn afkastamesti barnabókahöfundur landsins er Huginn Þór Grétarsson, en hann er einnig í forsvari fyrir útgáfufyrirtækið Óðinsauga, sem er nú leiðandi í útgáfu á íslensku efni fyrir börn og unglinga.

Það er komið fram yfir kvöldmat þegar ég renni upp að húsinu. Huginn Þór kemur til dyra og prinsessan hún Ísabella smeygir sér fram hjá pabba sínum til að sjá hver var að koma. Prinsessan er jafnforvitin og ég. Hún vill vita allt um mig, en ég vil vita allt um pabba hennar, Huginn Þór.

Þegar prinsessan er búin að svala forvitni sinni spyr ég Huginn Þór hvað hafi orðið til þess að hann hafi farið út í bókaútgáfu og valið að skrifa bókmenntir fyrir börn? „Ég hef alltaf verið mikið fyrir að búa til eitthvað, með óstjórnlega sköpunargleði. Til dæmis gerði ég heimatilbúna bók fyrir litla bróður minn þegar ég var unglingur og skrifaði nokkrar sögur og ljóð á þeim tíma. Áfram hélt ég uppteknum hætti og skrifaði mestmegnis mér sjálfum til yndis næstu árin. Þegar ég starfaði hjá prentsmiðjunni Odda sem markaðsstjóri kynnist ég framleiðslu bóka og hafði þá um nokkurt skeið unnið að skáldsögu og ferðasögu. Þannig að úr varð að ég gaf út mína fyrstu bók árið 2006 sem var ferðasaga sem segir frá dvöl minni í Suður-Ameríku.“ Þá sagðist hann hafa í framhaldi af þessu farið að draga fram gömul handrit að barnabókum og fullvinna þau. Strax árið 2008 gaf hann út, hvorki meira né minna en fimm barnabækur. Eina af þessum bókum hafði Huginn Þór skrifað rúmlega tíu árum áður. Eftir það var ekki aftur snúið, Hann var kominn á skrið og hefur verið að skrifa síðan. Síðan bætir hann við að; útgefnar bækur eftir hann væru orðnar vel yfir tuttugu talsins og það séu fleiri væntanlegar.

Fékkstu einhverja ráðgjöf eða kennslu við skrifin eða er maður sjálfmenntaður á þessu sviði? spyr ég hann og virði fyrir mér skemmtilegu myndirnar úr barnabókunum sem prýða veggina í holinu. „Ég nýtti mér samskiptavettvang á netinu sem heitir Rithringur.is. Þar eru ótal rithöfundar, bæði útgefnir og óútgefnir, sem gefa hvor öðrum endurgjöf á efnið sem verið er að vinna. Það er margt sem höfundar geta byggt á þegar það kemur að skrifum. Það mikilvægasta er sennilega lífsreynsla. Svo er það líka menntun. En þó alls ekki eingöngu íslenska- og bókmenntafræði. Það væri of einhæft að mínu mati. Fólk með ólíkan bakgrunn eykur fjölbreytni í bókmenntum. Ég er viðskiptafræðingur að mennt, en ég legg mesta áherslu á uppfræðslu og að vekja börn til umhugsunar í mínum skrifum. Að skapa umræðu um ákveðin málefni sem skipta börn máli. Síðan reynir maður að styrkja góð gildi á sama tíma, án þess þó að þrengja þeim upp á nokkurt barn.“

Í stuttu máli, hverskonar efni kom út á vegum Óðinsauga á síðasta ári? Spyr ég og renni yfir litríku barnabækurnar sem fylla út í hillurnar. „Við í útgáfunni höfum verið að sækja efnivið til íslensku þjóðsagnanna. Búkolla kom út í nýrri útgáfu með skemmtilegum vatnslitamyndum. Bækur með boðskap, ein bók tekur á myrkfælni barna, önnur tekur á einelti o.s.frv. og bækur sem hafa uppfræðslugildi. Kenna þeim um líkama þeirra og fleira í þeim dúr. Síðan eru bækur með meiri texta til að þjálfa lestur og þá er höfuðáherslan á að bækurnar séu skemmtilegar. Og grín, það má ekki gleyma því. Sumir krakkar eru tvístígandi þegar kemur að lestri, og ég reyni líka að skrifa bækur sem eru gamansamar, geri gys að ýmsu sem börnin þekkja og reyni að þau til að hlægja. Það eykur líkurnar á því að þau nenni að lesa og sem aftur eykur færni þeirra. Þá geta þau notið fjölbreyttari bókmennta. Bara síðast í dag var ég í símanum og ræddi við bókasafnsvörð sem sagði, að hún reyndi ávallt að kaupa margar bækur eftir þennan „Huginn Þór“, því bækurnar hans væru svo skemmtilegar. Ég gleymdi greinilega að kynna mig, en fannst gaman að heyra það sem ég hef séð undanfarin ár, að börn njóta þess að lesa bækurnar. Þær eru litríkar og efnið gamansamt. Þannig legg ég mitt að mörkum til að auka lestur barna.“ segir Huginn Þór kíminn og bætir við: „Við gáfum út um 25 verk í fyrra en það stefnir í að við verðum með um 30 verk í ár.“

Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér? „Það er vissulega draumur að geta gefið út 34 barnabækur á ári líkt og allt stefnir í þetta árið, bæði innlent efni og þýddar bókmenntir. En íslenskar barnabækur eiga undir högg að sækja í samkeppni við ódýrt erlent efni. Íslenskir barnabókahöfundar hafa ekki staðið jafnfætis öðrum rithöfundum hérlendis þegar kemur að úthlutunum listamannalauna og bókmenntasjóðir hérlendis virðast einnig líta barnabókmenntir öðrum augum en skáldsögur og annað efni ætlað fullorðnum. Þetta er vissulega alvarlegt mál og óskiljanlegt, því það er alveg klárt mál að mikilvægustu bókmenntir þjóðarinnar eru þær sem kenna börnum að njóta lesturs. Án góðra barnabókmennta er hætt við því að börn alist upp við aðra afþreyingu og hafi lítinn áhuga á bókmenntum á fullorðinsárum.“ segir Huginn Þór ákveðinn og heldur áfram: „Óðinsauga útgáfa mun áfram leggja áherslu á barnabókaútgáfu, en útgáfan hefur einnig undanfarin ár gefið út skáldsögur fyrir fullorðna og það er að vænta fleiri nýjunga í ár. Við lítum á það sem skyldu okkar að gefa nýjum efnilegum höfundum tækifæri til að koma góðu efni á framfæri og ýta undir grósku í þessum geira. Það stefnir í að íslenskir höfundar hjá útgáfunni verði orðnir 20 talsins í lok árs 2013.“

Viðtalið verður ekki lengra því að Ísabella er orðin þreytt og bíður eftir rithöfundinum föður sínum með bók í hönd til að lesa fyrir svefninn. Ég kveð Huginn Þór og fæ að skyggnast örlítið meira inn í framtíðina á leiðinni út, þegar hann sýnir mér nokkrar af þeim bókum sem hann og aðrir höfundar eru að vinna að hjá útgáfunni. Það er óhætt að segja að börnin okkar geti hlakkað til komandi missera. En einfaldast er fyrir lesendur að fylgjast með útgefnu efni á Odinsauga á facebook og vefsíðu útgáfunnar odinsauga.com

Viðtal tekið af Sirrý Sig. 2013

Útgefið efni eftir Huginn Þór Grétarsson:

Árið 2006 * Háskaför um Suður-Ameríku, reisubók, 285 bls.

Árið 2008 *Blómlegt fjölskyldulíf, barnabók, 32 bls. *Græni loftbelgsstrákurinn, barnabók, 32 bls. *Nammigrísinn, barnabók, 32 bls. *Riddarinn ógurlegi og góðhjartaði drekinn hans, barnabók, 32 bls. *Þjófaland, barnabók, 56 bls.

Árið 2009 *Litaleikurinn, barnabók, 32 bls. *Og þau lifðu hamingjusöm allt til æviloka… eða hvað?, barnabók, 60 bls.

Árið 2010 *Ég get ekki sofið, barnabók, 16 bls. *Kanínan sem fékk ALDREI nóg, barnabók, 40 bls. *Lagarfljótsormurinn, barnabók, 56 bls. *Ormur gutti og litli Indjáninn, barnabók, 40 bls. *Skýjahnoðrar, barnabók, 28 bls.

Árið 2011 *13 þrautir jólasveinanna, barnabók, 18 bls. *Aldeilis gaman, barnabók, 18 bls. *Eldingarþjófurinn, unglingabók (Þátttaka í þýðingu), 344bls. *Fjársjóðskistan, barnabók (þýðing), 186 bls. *Fjörugt ímyndunarafl – á fjórum tungumálum, barnabók, 34 bls. *Kýrin sem kunni ekki að baula…, barnabók, 54 bls. *Litla ljúfa SKRÍMSLA, barnabók, 46 bls. *Skoppa og Skrítla á faraldsfæti, barnabók, 26 bls.

Árið 2012 *13 þrautir jólasveinanna 2, þrauta- og litabók, 18bls. *Alli almáttugi, barnabók, 34 bls. *Búkolla, (endursegi söguna), 36 bls. *Candy Gobbler (ensk útg.) 32 bls. *Dýr, smábarnabók (þýðing), 24 bls. *Ég get ekki sofið, barnabók (ný útg.). 18 bls. *Fjársjóðskistan: Fimm mínútna ævintýri, (þýðing), 186 bls. *Fjársjóðskistan: Sígild ævintýri (hljóðbók). *Jólalögin okkar+geisladiskur, barnabók með jólalögum, 122 bls. *Kobbi kló, barnabók, 56 bls. *Koppabókin, smábarnabók, 14 bls. *Litir, smábarnabók (þýðing), 24 bls. *Myrkfælna tröllið, barnabók, 32 bls. *Naglasúpan, barnabók, 32 bls. *Þetta er hann Jói, barnabók, 17 bls.

Árið 2013 *13 þrautir jólasveinanna 3, þrauta- og litabók, 18bls. *Fiðrildavængir, barnabók, 34 bls. *Fjársjóðskistan: Kvöldsögur, (þýðing), 186 bls. *Gilitrutt, barnabók, 32 bls. *Herra Hákarl leitar að leikfélaga, (þýðing), 16 bls. *Kertasníkir – jólasmásögur, barnabók, 18 bls. *Kýrin Klaufey, (þýðing), 16 bls. *Litirnir, (þýðing), 20 bls. *Sóley stjarna og Bleika plánetan, barnabók, 50 bls. *Tölurnar, (þýðing), 20 bls.