SMÁSÖGUR

ÆVINTÝRI LÍKAST

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir

Ingibjörg Elsa lét það ekki hafa neikvæð áhrif á sig þegar hún fékk neitanir um útgáfu, og hún fagnar því að sjálfsútgáfa er að verða auðveldari.

Var að láta prenta tvær bækur!

Viðtalið við Ingibjörgu Elsu Björnsdóttur undirbý ég, eða því sem næst, á þessum fjórum metrum, undir skyggninu við Bílanaust og reyni að halda á mér hita með því að ganga fram og til baka, á meðan ég bíð eftir Eika mínum. Ég renni yfir spurningarlistann, velti fyrir mér hvort einhverju megi bæta við, hvernig Ingibjörg Elsa sé, hvernig hún búi, hvernig viðtalið muni verða. En ég veit að það verður einstakt.

Þegar Eiki minn kemur, rúllum við niður í Blómaval og komum við á Hlölla í bakaleiðinni, borðum og leggjum síðan af stað á Selfoss. Við erum orðin of sein. Ég hringi í Ingibjörgu Elsu og hún hefur áhyggjur af, að við rötum ekki en það er ekkert að óttast vegna þess að við erum með nýjustu símaskrána meðferðis og kíkjum á götukortið í henni.

Ingibjörg Elsa býr í parhúsi, talan átta stendur gyllt á hurðinni. Ég geng yfir mölina að dyrunum, læt sem ég sjái ekki bjölluna og banka. Húsmóðirin, eiginkonan, kattaeigandinn, þýðandinn, rithöfundurinn, útgefandinn, framkvæmdastjórinn… og svo mætti lengi telja, þó ekki í þessari röð, kemur til dyra, áður en ég næ að setja höndina niður. Við heilsumst og förum inn í forstofuna. Kötturinn Alexandra bíður forvitinn fyrir innan dyrnar.

Stofan blasir við okkur. Einkasonurinn, Siggi er búinn að koma sér vel fyrir með leikföngin sín og horfir á teiknimynd. Hann er ekki eins spenntur fyrir okkur og fallega loðdýrið sem eltir okkur inn í eldhús. Við Eiki heilsum Valgeiri Bjarnasyni, eiginmanni Ingibjargar Elsu og setjumst niður við dúkalagt eldhúsborð og hún gefur mér þessa flottu handunnu sápu, sem ilmar svo rosalega vel.

Við fáum okkur kaffisopa og meðlæti og spjöllum saman, aðallega um ritstörfin, Rithringinn og væntanlega útgáfu á Rithringur.is Smásögur 2013 í prentuðu formi.

Ingibjörg Elsa býður mér inn á skrifstofuna sína en eiginmennirnir verða eftir. Hún sýnir mér lesforritin og málverk sem hún hafði málað af píanísta í rauðum fötum, einföld, skýr og einstaklega flott mynd sem skartar nú sem kápumynd á nýútkominni rafbók Ingibjargar Elsu sem heitir, „Ferðin til Rómar.“ En eintökin úr prentun eru væntanleg á morgun.

Hvað varð til þess að þú fórst að þýða og hvenær byrjaðir þú á því? „Ég var í flottu starfi sem deildarsérfræðingur hjá Rannís, en missti það starf mjög skyndilega. Þá settist ég niður við eldhúsborðið og íhugaði hvað ég ætti að gera, og niðurstaðan var að hefja þýðingar.“

Og hver voru þín fyrstu skref í þeim efnum? „Ég hafði samband við fyrirtækið Skjal ehf. í Reykjavík, og fékk strax samning. Þeir komu mér af stað í þýðingabransanum og ég mun alltaf þakka þeim fyrir það. Ég var fyrst einyrki, en komst fljótt að því að það væri hagstæðara fyrir mig að stofna og reka mitt eigið fyrirtæki. Brandugla slf heitir það.“

Hvernig gekk þetta allt fyrir sig? „Það var erfiðast fyrstu tvö árin að afla verkefna, en þetta hefur verið eins og snjóbolti sem stækkar smám saman. Það hefur smám saman orðið meira og meira að gera.“

Var mikill kostnaður við fyrirtækið? „Kostnaðurinn í upphafi var 500 þús. kr. og fólst í tölvu, skrifborðsstól og forritum sem þurfti að kaupa.“

Hvernig hefur gengið að markaðssetja fyrirtækið? „Mjög vel. Við höfum verið með 80% verkefni erlendis frá, en erum núna að færa okkur meira inn á íslenska markaðinn.“

Á hvaða tungumálum er verið að þýða? „Af ensku yfir á íslensku eða öfugt. Einnig dálítið úr norsku eða sænsku yfir á íslensku.“

Hver eru aðal þýðingar verkefnin? „Auglýsingatextar, fylgiseðlar með lyfjum, læknisfræðilegir textar, leiðbeininga-bæklingar og handbækur er aðalefnið sem verið er að þýða.“

Býður fyrirtækið upp á prófarkalestur? „Já, ég er stöðugt að prófarkalesa.“

Hver eru markmið Branduglu? „Að vaxa og dafna og umbreytast helst í fyrirtæki á sviði þýðinga og útgáfu með 4 starfsmenn, 2 þýðendur, einn íslenskufræðing og 1 manneskju á skrifstofu.“

Við förum inn í eldhús. Loðdýrið er búið að hringa sig saman ofan á stólnum og ég tek greyið og set kisuna niður á gólf. Síðan fæ ég mér meira kaffi á meðan Ingibjörg Elsa les fyrir okkur glænýja smásögu sem heitir Ferðin til Rómar. Ég panta bókina hjá henni og hlakka mikið til að lesa hinar sögurnar.

Ingibjörg Elsa hefur skrifað frá því að hún var barn, fékk verðlaun fyrir ritgerð þegar hún var 16 ára en hún fór ekki að skrifa fyrir alvöru fyrr en við stofnun Rithringsins fyrir 10 árum. Samt hafði henni tekist að fá birt ljóð í Mogganum þegar hún var unglingur.

Hún hefur fengið sáralítinn stuðning eða ráðgjöf við skriftirnar fyrir utan Rithringinn en hún býr vel að miklu sjálfsöryggi og háskólagráðunum sínum en hún er með: B.A. í rússnesku og sagnfræði, B.Sc. í jarðfræði. M.Sc. í umhverfisefnafræði og M.A. í þýðingafræði. Ingibjörg Elsa lét það ekki hafa neikvæð áhrif á sig þegar hún fékk neitanir um útgáfu, og hún fagnar því að sjálfsútgáfa er að verða auðveldari. Á síðasta ári gaf Ingibjörg Elsa út ljóðabókina, „Rökkursónatan“ sem rafbók á www.emma.is.

Hvernig atvikaðist það að þú ákvaðst að gefa út á eigin vegum? Hafðir þú einhverja reynslu á því sviði? Fékkstu einhverja aðstoð? Fylgdu mikil útgjöld sjálfútgáfunni? „Útgefendur vilja almennt ekki gefa út fyrstu ljóðabók eftir óþekktan höfund. Það er næstum því vonlaust dæmi. Meira að segja Steinn Steinarr varð að gefa út fyrstu ljóðabók sína á kostnað höfundar. Ég ákvað að ekki þýddi að reyna að fá útgefanda og ákvað að gefa út sjálf, fyrst rafbók og núna prentað eintak. Það kostar um 45 þús. kr. að prenta 50 eintök af A5 bók í svart hvítu. Smásagnasafnið mitt Ferðin til Rómar er líka að koma út núna bæði sem rafbók hjá emma.is og sem prentað eintak í 50 tölusettum eintökum (frumútgáfa). Ég setti bókina sjálf upp í Word, bjó til pdf. skjal og sendi til prentunar. Ég útvegaði einnig sjálf ISBN númer og setti inn ákvæði um höfundarrétt. Þetta er í raun mjög einfalt. Síðan nota ég myndir eftir sjálfa mig sem forsíðumyndir, þannig að ég þarf ekkert að greiða fyrir höfundarrétt á myndum.“

Hvernig hefur gengið að selja bækurnar og markaðssetja útgáfuna þína og sjálfan þig sem höfund, þegar þú lítur til baka? „Ég hef ekki fengið sölutölur fyrir ljóðabókina, en dreifing hennar hefur gengið ágætlega. Það á eftir að koma í ljós hvernig gengur með smásagnasafnið. Ég hef sent út fréttatilkynningu í Sunnlenska fréttablaðið og ein af sögunum mínum mun birtast þar. Einnig var viss áfangi fyrir mig að fá smásögu birta í bókmenntatímaritinu Stínu. Ég held að smásagan Engillinn muni vekja athygli. Hún er einstök og hefur sterk höfundareinkenni. Ég hef minn sérstaka stíl. Mér gengur bara best hér á Suðurlandi. Ég er nokkuð viss um að smásagnasafnið „Ferðin til Rómar“ á eftir að verða vinsælt a.m.k. hjá vissum hópi fólks. En það er aldrei hægt að skrifa svo öllum líki.“

Hvert er framhaldið hjá þér í skrifum og útgáfu? Markmiðin? „Ég er að skrifa ljóðabók sem á að fjalla um miðaldir og ég ætla að reyna að fara aftur fyrir iðnbyltingu og komast út fyrir hinn nútímalega hugsunarhátt. Hugmyndin var að ferðast í huganum til annarrar aldar, og horfa síðan á nútímann utan frá og spegla hann í spegli miðalda. Síðan hef ég hafið skriftir á bók sem ég vona að verði metsölubók. Hún á að vera létt og skemmtileg og ekki taka sjálfa sig of alvarlega. Umfjöllunarefnið er algjört leyndarmál á þessari stundu, en ég get upplýst að sagan gerist á Suðurlandi.“

Það er Valgeir sem stendur upp til að koma Sigga í rúmið. Og Ingibjörg upplýsir okkur að án stuðnings eiginmannsins gæti hún ekki einbeitt sér svona að skrifunum og því sem þeim fylgir. Hún vinnur við þýðingar frá 8-4 að öllu jöfnu en skriftarstörfunum sinnir hún á kvöldin. Siggi kemur og knúsar okkur Eika góða nótt.

Nýverið fékk Ingibjörg Elsa inngöngu í Rithöfundasambandið.

Hvers vegna ákvaðstu að sækja um í Rithöfundasambandið? „Af því að mér hafði verið sagt að það væri góður félagsskapur sem stæði vörð um réttindi rithöfunda og þýðenda. Mér fannst sjálfsagt að skila inn umsókn.“

Hvað þýðir það fyrir þig að vera félagsaðili? „Hef ekki fundið fyrir mikilli breytingu, nema að ég fæ afslátt í einstaka bókaverslunum.“

Myndir þú mæla með því að höfundar gerðust félagar? „Já, við rithöfundar og skríbentar verðum að standa saman, þótt við séum stundum í beinni samkeppni með bækurnar okkar.“

Það er kominn tími til að kveðja og þakka fyrir okkur. Við göngum fram í forstofuna og förum í skóna. Ingibjörg Elsa kveður okkur í dyrunum segir að við séum alltaf velkomin þegar við eigum leið um Suðurlandið.

Við Eiki minn setjumst inn í bíl og hann keyrir heim á leið, ætlunin er að fara Suðurstrandaveginn. Við erum þögul. Ég melti allt sem fram fór og mundi allt í einu eftir að ég gleymi sápunni, sem þýðir aðeins eitt; ég á eftir að koma aftur inn á yndislega heimilið hennar Ingibjargar Elsu og fjölskyldu.

Listi yfir útgefin verk Ingibjargar Elsu:

Dæmisögur Tolstojs, Lafleur útgáfan 2010. Rökkursónatan rafbók, www.emma.is 2012. Rökkursónatan, prentuð, 2013. Ferðin til Rómar, rafbók, www.emma.is 2013. Ferðin til Rómar, prentuð, 2013. Auk þessa ýmsar greinar í blöðum og tímaritum, m.a. í Stínu, Náttúrufræðingnum o.s.frv. Viðtal tekið af Sirrý Sig.