SMÁSÖGUR

ÆVINTÝRI LÍKAST

Jóhanna Atladóttir

Í sviðsljósinu hjá Nostra í febrúar og mars er Jóhanna Atladóttir. Bók hennar í Nýjum heimi var gefin út af litlu forvitnilegu fyrirtæki sem heitir Töfrakonur og verðum við með pistil um þær fljótlega.

Ég hitti Jóhönnu í skemmtilegu Skype samtali og fræddist um hana, listamannabæinn Blönduós og fékk að heyra hvernig hún notar sögurnar sínar til að skapa sér og sínum betri heim.

Hver ert þú Jóhanna? Ég er fædd 1962 og er alin upp í miðbæ Reykjavíkur. Foreldar mínir skildu þegar ég var lítil, ég fylgdi föður mínum og við bjuggum hjá ömmu. Af ömmu minni lærði ég margt um gamla tíma og lærði að tala og skilja gamalt málfar. Ég flutti til Blönduós þegar ég var 24 ára og hef verið hér síðan þá, umvafin einstakri náttúru við ósa Blöndu. Áin skiptir bænum í vestur og austurhluta og ég bý í útjaðri gamla hlutans á vesturbakkanum. Það er ekki nema um 30-40 manns sem búa hérna megin en þetta er hálfgert listamannshverfi t.d í desember 2011 komu út fjórar bækur allt gefnar út af okkur hér í hverfinu. Matreiðslubók, Ljósmyndabók, ein skáldsaga og við áttum fjórar smásögur í smásagnabókinni Nokkur lauf af norðan. Þannig að það voru sex manns úr gamla bænum sem komu að útgáfu bóka það árið. Ég á 6 börn og 7 barnabörn. Börnin mín komu með frekar löngu millibili það elsta er nú um 34 og yngsta er 10 ára. Ég var og er endalaust að búa til sögur fyrir börnin og segja þeim frá ýmsum furðuverum.

Ég vildi vita hvernig furðuverur Jóhanna væri að tala um og hún nefndi sem dæmi kuskupuskana. Það eru með öðrum orðum lóboltar eða litlu kanínurnar sem verða til á gólfunum þegar ryk byrjar að safnast upp. Þegar sonur Jóhönnu var um þriggja ára aldur var hann logandi hræddur við þessi fyrirbrigði og líka svolítið hræddur við ryksuguna. Það dugði ekki að segja drengnum að þetta væri bara ryk, því fyrir honum voru þetta lifandi, svolítið óhugglegar verur. Til að leysa vandamálið bjó Jóhanna til kuskupuskurnar. Litlu rykboltarnir urðu að litlum verum sem bjuggu í ryksugunni og höfðu villst að heiman. Snáðinn vildi auðvitað ólmur hjálpa þeim heim aftur. Hann fékk að sitja á ryksugunni og stjórna ferðum mömmu um gólfin þar sem þau hjálpuðust að við að koma kuskupuskunum heim í þorpið sitt. Kuskupuskuþorpið þar sem heill ævintýraheimur blómstraði og gólfin gljáandi hrein sem aldrei fyrr.

Jóhanna hefur mjög sérstakan ritstíl sem minnir mikið á munnlega frásögn. Í samtali okkar komst ég að því að ástæðan er sú að hún hefur verið að segja vinum og vandamönnum sögur alveg frá barnsaldri. Ímyndunaraflið og frásagnargleðin var hennar vöggugjöf sem hún hefur nýtt sér alla ævi til að gleðja fólkið í kringum sig. Það var ekki fyrr en hún var um 18 ára að hún skrifaði eina af sögunum sínum niður. Það var sagan Litla silfurlita jólabjallan sem Jóhanna fór með niður í útvarp og var sagan lesin í þætti fyrir börn á aðfangadag í þætti sem hét Beðið eftir jólum. Fyrir þetta fékk hún höfundalaun svo hennar fyrsta opinbera birting var launuð. Næstu árin fóru í að sinna stóru heimili þar sem lítill tími var til að setjast niður og skrifa en hinsvegar var alltaf hægt að finna tíma til að búa til og segja börnunum sögur. Frásagnargleði Jóhönnu nær langt út fyrir veggi heimilisins. Alveg síðan yngsta barnið fór í skóla hefur Jóhanna gefið öllum bekknum jólasögu. Hún fléttar öllum krökkunum inn í söguna svo þau eru öll söguhetjur. Sagan er síðan alltaf lesin fyrir bekkinn einhvern tíma á jólaaðventunni. Þetta er mjög vinsælt og Jóhanna hefur í gegnum árin oft verið spurð af krökkunum hvort þau fái nú ekki örugglega jólasöguna sína. Jóhanna hefur líka tekið þátt í ástarsögukeppni Vikunnar þar sem 2 sögur eftir hana voru birtar, Draumaprinsinn á hvíta hestinum og Sigling um Karabíska hafið. Hún á einnig smásögur í báðum smásagnakiljum Töfrakvenna sem heita Nokkur lauf að norðan.

Jóhanna er búin að bætast við í rithrings-smásagnahópinn okkur öllum til mikillar ánægju. Hún verður með draugasögu byggða á raunverulegum atburðum frá unglingsárum hennar. Sagan verður með í næsta smásaganasafni Rithringur.is 2014, þemað í ár er dulúð og hryllingur.

Fæstu við aðrar listir?Jóhanna Atladóttir Ég var mikið að teikna hér áður fyrr en svo hef ég verið að prjóna og hanna prjónaflíkur. Það var einu sinni birt mynd í tímaritinu Vikunni af húfu, trefli og vettlingum sem ég hannaði og bjó til. Annars hef ég mest verið að gefa þetta.

Hvað ertu að skrifa núna og hvert stefnir þú sem rithöfundur? Núna er ég að skrifa 2 bækur eina barnabók og eina fullorðins. Ég er að verða búin með þær á bara eftir að yfirfara og fínesera. Skáldsagan fyrir fullorðna heitir Glerskjaldbakan og fjallar um unga konu sem býr við mikið andlegt ofbeldi og er einstaklega meðvirk í sambandinu. Maðurinn er geðhvarfasjúklingur sem neitar alfarið að eitthvað sé að hjá sér en allt er að hjá henni. Sagan er að hluta til dulræn líka þar sem unga konan nær sambandi við ömmu sína í gegnum Glerskjaldbökuna. Þó þetta sé skáldsaga þá byggir hún á eigin reynslu. mynd-glerskjaldbaka-300x200Ég var sjálf í svona sambandi og hef reynsluna af því að dragast hægt og rólega inn í hringiðju þessa einkennilega heims sem maðurinn bjó í. Að lokum var ég alveg hætt að átta mig á hvað var rétt og hvað ekki. Ég var lengi að hugsa um þessa sögu áður en ég fór að skrifa hana. Áður en ég hófst handa við skrifin settist ég niður með spil sem heita Kærleiksspilin og dró spil til að beina mér á rétta leið. Spilið sem ég dró var Virðing og það er hugarfarið sem ég hef haft að leiðarljósi við að skrifa Glerskjaldbökuna. Virðing fyrir hinum veika aðila. Nú er ég að fara í að leita að einhverjum til að gefa hana út fyrir mig.

Hvað fékk þig til að skrifa Í nýjum heimi? I nyjum heimiDraumur. Í upphafi var þessi saga brot úr draumi sem ég vann útfrá. Á þeim tíma þegar ég er að byrja að skrifa bók 1 var mikið verið að tala um heimsendir enda árþúsundaskiptin ný komin og mikið talað um heimsendir. Fljótlega uppúr því streymdu heimsendamyndir um allt í bíóum og sjónvarpi. Mér fannst þessar myndir aldrei skila neinu um hvað yrði um fólkið sem lifði af. Ég fór líka að reyna að sjá fyrir mér hvernig allt yrði ef við hefðum ekki nútímatæknina, hvar við yrðum stödd og hvernig við myndum smátt og smátt týna niður þekkingu okkar. Ég var nokkuð lengi að skrifa Í nýjum heimi þar sem ég skrifaði fyrst bók 1 og svo liðu allt að tvö ár þar til ég byrja á bók 2. Þær voru svo settar saman og eru báðar í bókinni, Í nýjum heimi. Ég talaði við mikið af gömlu fólki sem fræddi mig um gamla tíma og aðferðir við hin ýmsu störf og nýtti mér upplýsingarnar við skrifin.

Við Sirrý Sig. erum þakklátar fyrir að hafa fengið að kynnast Jóhönnu Atladóttur. Hún minnir okkur á að við öll höfum áhrif á heiminn sem við búum í. Það sem við gerum og segjum hefur áhrif á umhverfi okkar. Jóhanna notar hæfileika sína bæði til að skálda nýjan og betri heim og einnig til þess að bæta heiminn sem hún og við öll búum í. Ef við öll gerðum eins, notuðum hæfileika okkar til þess að láta öðrum líða vel þá myndum við fljótt búa í betri heimi.

Viðtal tekið af Hildi Enólu 2014